3.1.2011 – Matarlausnir á vinnustöðum

Stærsti hluti þess sem fólk borðar á sér stað á vinnutíma

Fyrirtæki sem huga að matarlausnum fyrir starfsmenn sína, eru líklegri til afreka en fyrirtæki sem hafa „hagrætt” þessum kosti af borðum sínum.

Fólki er ráðlagt að neyta stærsta hluta fæðunnar fyrri hluta dags og sumir telja að helst eigi að borða sem allra minnst seinasta hluta dagsins.Niðurstaðan er sú, að fólk þarf að næra sig að stærstum hluta í vinnutíma. Spurningin er þá hvort ekki sé heppilegt að fyrirtæki reyni að leysa þessi mál fyrir alla í einu í stað þess að hver og einn sé að eyða tíma í að finna út úr þessu á hverjum degi. Annars á fólk auðvitað að hafa með sér nesti, en það er eins og að segja barni að borða siginn fisk – ef barnið vill ekki fiskinn og starfsmaðurinn tekur aldrei með sér nesti, þá er uppi staða sem þarf að leysa hvort sem líkar betur eða verr.

Hvað ætli fari mikill tími á dag í matarmál á þeim vinnustöðvum þar sem ekki er hugað að matarlausnum?
Hvað ætli einstaklingur eyði miklum tíma á dag í að hugsa um hvað hann er svangur, hvað hann eigi að fá sér næst og hvað langan tíma það taki hann að afla vistanna? Hér er ekki um vísindalega nálgun að ræða en samt fróðlegt að velta fyrir sér hvað þetta getur orðið langur tími.

Flestir næra sig áður en þeir koma til vinnu og því má búast við að um tveimur tímum seinna fari svengd að gera vart við sig. Ef lausnin er ekki innan seilingar fer hungurtilfinningin að trufla einbeitinguna og sú truflun getur varað dágóða stund áður en gripið er úrræða. Og þá er spurning hvort lausnin kalli á að viðkomandi fari úr húsi eða fái sér kex og fjóra sykurmola með kaffinu.

Í hádeginu þarf svo að skreppa frá til að ná sér í eitthvað að borða og sá hálftími, sem flestir hafa í mat líður hratt á hamborgarastaðnum og ekki ólíklegt að fara þurfi með matartímann í framlengingu.

Seinnipartinn má svo aftur búast við svipuðu ástandi og var uppi um morguninn, tveimur tímum eftir hádegismatinn byrjar hungurtilfinningin að láta á sér kræla en nú reynir fólk að þrauka af daginn á hálfum tanki og treystir svo á ísskápinn heima.

Segjum að einbeitingarskortur vegna svengdar vari í 30 mínútur á morgnana, aðrar 30 mínútur seinnihluta morguns og í 60 mínútur seinni hluta dags. Þarna eru komnar 120 mínútur þar sem starfsmaður er ekki með þá meðvitund sem ætlast er til að hann hafi. Gefum okkur að þarna hafi farið klukkutími í súginn. Við gerum svo ráð fyrir að hann þurfi 30 mínútur á dag umfram umsamdan hvíldartíma til að redda sér einhverju. Heill knattspyrnuleikur liggur þarna í valnum – og hvað skyldi hann kosta? Starfsmaður með 300.000 kr. í laun kostar um 2.500 kr. á tímann með öllu launatengdu. 90 mínútur kosta því 3.750 kr. á dag.

Samtals gera það 82.500 kr. á mánuði.

Veikindadagar Ég slæ því föstu að starfsmaður í fyrirtæki, þar sem matarlausnir eru í hávegum hafðar, veikist mun síður en þeir sem vinna hjá fyrirtækjum sem huga ekki að þessum þætti. Ég legg ekki í að giska á hvað þetta getur verið stór liður en þeir sem hafa rekið fyrirtæki vita, að óþægindi vegna fjarvista eru mun meiri en sem nemur kaupi þess sem er fjarverandi

Fyrirtækjamenning / stemning Samverustundir starfsmanna í hvíldartímum er dýrmætur liður í því að byggja upp liðsheild í fyrirtækjum. Hingað til hefur aðeins verið minnst á það sem tapast ef matarlausnir eru ekki til staðar. Gaman væri að fá tölur um ávinninginn í fyrirtækjum þar sem vel er hugað að þessum málum

Vellíðan í vinnu – hvatning Líkt og í liðnum á undan, þá er hér verið að huga að sóknarleiknum – hverju skilar ánægður starfsmaður umfram þann sem er ekki ánægður. Það er ekki verið að halda því fram að sá seinni sé óánægður, hann er bara ekki ánægður. Það er alkunna að fólk notar almennt bara lítinn hluta af þeim gáfum sem það er gætt. Því betur sem fólki líður, þeim mun meiri líkur eru á að einbeitingin sé í lagi og hvatinn til að vinna afrek eykst jafnframt.

Dæmið hér að framan um einstaklinginn sem var á 50% afköstum, er miðað við starfsmann sem er hvorki ánægður né óánægður. Semsagt starfsmaður í hlutlausum. Hvar eigum við þá að staðsetja þennan ánægða?

Hagræðing eða sóun? Ávaxtabíllinn hefur um margra ára skeið séð starfsmönnum fyrirtækja fyrir ávöxtum í vinnunni. Búið til kerfi sem tryggir að hægt sé að grípa hollan bita þegar svengdin kallar.

Þessi lausn kostar í kringum 500 kr. á viku og tryggir starfsmanni þannig 1-2 ávexti á hverjum degi. Þessum þætti hafa mörg fyrirtæki „hagrætt” í kreppunni þannig að starfsmönnum gefst nú ekki lengur kostur á að grípa til þessarar hollu skyndilausnar.

Eigum við ekki að rífa þetta aðeins upp? Talnaleikurinn hér á undan gaf mér að sísvangur starfsmaður kosti fyrirtæki 3.750 kr. á dag. Síðan sleppi ég að leika mér með tölur um veikindadaga og þátt hvatningar í sambandi við uppbyggingu liðsheildar og vellíðunar einstaklingsins í vinnunni.

Tökum samt 3.750 kallinn á dag og deilum í hann með 3 því okkur finnst þetta of hátt til að vera satt. 1.250 krónurnar sem eftir standa gera fyrirtækjum mögulegt að nýta sér matarlausnir fyrirtækis eins og Ávaxtabílsins allan daginn og rúmlega það. Hvernig væri nú að skoða hlutina í samhengi og rífa þetta aðeins upp á nýju ári?

Með baráttukveðju, Haukur

Til baka

By | 2018-06-22T19:06:05+00:00 June 22nd, 2018|Uncategorized|Comments Off on 3.1.2011 – Matarlausnir á vinnustöðum

About the Author: