| | | Forsíða | Fyrirtækið | Vörur | Molar |
Fréttir
Fréttabréf
Skráning á póstlista:


Hafa samband
Ávaxtabíllinn 10 ára

Litrík ferðasaga

Í byrjun maí 2004 rann Ávaxtabíllinn af stað í sínar fyrstu ferðir til fyrirtækja með sinn ferska kost í pokahorninu. Í kjölfarið átti sér stað bylting á vinnustöðum, þar sem hvert fyrirtækið á fætur öðru tók upp þann sið að bjóða starfsmönnum uppá þennan holla bita svo þeir héldu óskertri starfsgetu út vinnudaginn.

Árið 2008 hreppti svo Ávaxtabíllinn Fjöreggið, en það gefur Matvæla- og næringarfélag Íslands til þess fyrirtækis eða einstaklings, sem hefur skarað fram úr á árinu á sviði matvæla og næringar.

Í fyrstu bauð Ávaxtabíllinn aðeins uppá heila ávexti. Hugmyndin byggðist á því að gera fyrirtækjum auðvelt að panta gott úrval ávaxta reglulega án fyrirhafnar. Ávextir í áskrift var útgangspunkturinn - ákveðinn skammtur af ávöxtum, sem kæmi reglulega í fyrirtækin á ákveðnum dögum og viðskiptavinurinn gæti hæglega breytt pöntun sinni sjálfur inná heimasíðu Ávaxtabílsins.

Í framhaldi á þessu fórum við svo að bjóða fyrirtækjum uppá niðurskorna ávexti og grænmeti, fyrst sem veislubakka fyrir fundi og aðrar uppákomur, en í framhaldi fóru svo að fást margvíslegir ávaxta- og grænmetisbakkar í verslunum, sem höfðu aldrei fengist þar áður.

Fyrst við vorum komin í verslanir, vaknaði sú hugmynd, að bjóða líka uppá alls kyns hollan skyndibita , en lítið sem ekkert úrval var á boðstólum í verslunum af þess kyns vörum. Þarna urðu til saltabakkar, pastabakkar, samlokur og langlokur í grófu brauði með hollu meðlæti, skyrbúst og ýmislegt fleira. Þessar vörur fóru í flestar matvöruverslanir og á bensínstöðvar, en árið var 2006 og þessi hugmyndafræði því líklega eitthvað á undan tíðarandanum.

Þetta sama ár byrjuðum við svo að gera út Heimilisbílinn. Þar var á ferðinni möguleiki fyrir heimili að panta ávexti og grænmeti, alla skyndiréttina okkar auk ýmiss annars góðgætis og fá þetta sent heim einu sinni í viku. Á sama tíma fór Brauðbíllinn af stað, en hann bauð fyrirtækjum uppá hollt og gott brauð og bakkelsi á föstudagsmorgnum til að fresta eilítið þeim slaka sem fólk tekur gjarnan á mataræðið um helgar og jafnvel í aðdraganda helganna.

Í hartnær 2 ár sá svo Ávaxtabíllinn um allan matarkost í vélum Iceland express. Þar varð þessi holla hugmyndafræði að sjálfsögðu ofaná og sætti það nokkrum tíðindum á þessum vettvangi. Svo miklum reyndar að vakti athygli erlendra flugfélaga.

Ávaxtabíllinn hefur alltaf þótt aufúsugestur þegar börn og unglingar eru annars vegar. Foreldrar hafa trúað því að hugmyndafræðin sé hnökralaus og börnum þeirra sé því óhætt að fá sér þann kost sem boðið er uppá. Við vorum því á tímabili með Hollustusjoppur okkar í mörgum íþróttahúsum, sáum um veislukost á uppskeruhátíðum yngri flokka og ýmsum öðrum íþróttatengdum uppákomum.

Fyrir nokkrum árum fórum við svo að bjóða fyrirtækjum og öðrum uppá hádegismat, bæði kaldan og heitan. Lykillinn sem fyrr, að kosturinn væri léttur, hollur og góður. Við gerðum líka hollar súpur, sem boðnar voru frosnar í birgðaverslunum og einnig nokkra frosna rétti, sem hentuðu einnig stórum hópum.

Árið 2011 stofnuðum við svo tvö ný fyrirtæki, sem við rákum með Ávaxtabílnum. Annað hét Barnavagninn og framleiddi ferskan íslenskan barnamat úr ávöxtum og grænmeti. Fyrirtækið var staðsett suður í Garði og var þessari nýjung ætlað að keppa við þann innflutta niðursoðna barnamat sem var og er það eina sem fæst í matvöruverslunum. Hitt fyrirtækið heitir Svarti Haukur og hefur framleitt Lúpínuseyðið hans Ævars í 3 ár. Nýlega setti það fyrirtæki á markað nýja íslenska jurtavörulínu með hvannardrykkjum, sem nú fást, auk endurbætts Lúpínuseyðis, í ýmsum góðum verslunum.

Í dag býður Ávaxtabíllinn aðeins uppá heila ávexti líkt og í byrjun auk þess sem við framleiðum veislubakka úr ávöxtum og grænmeti. Við rekum auk þess Svarta Hauk og þá drykki sem fyrr er minnst á.

Einhver kann að spyrja hvað hafi orðið um allt hitt. Því er svo sem ekki auðsvarað. Nærtækt er að grípa til skýringa, um að þetta frumkvöðlastarf hafi verið unnið í einhverri mestu niðursveiflu íslensks efnahagslífs fyrr og síðar. Önnur skýring gæti verið, að margar af þessum hugmyndum hafi verið á undan tíðarandanum. Líklega hefðu þessar nýjungar svo einfaldlega þurft miklu meira eldsneyti en tiltækt var og hefðu því betur átt heima í rótgrónu fyrirtæki, þar sem hægt hefði verið að fylla á tankana þegar á móti blés. Einhverjar hugmyndir kunna svo að hafa verið fulldjarfar og aðrar hreinlega ekki góðar.

Í sjálfu sér skiptir þetta ekki öllu máli og við ætlum ekki að staldra við fortíðina heldur læra af henni og halda áfram. Í rauninni er þetta nákvæmlega sama nálgun og á við um flest annað í okkar samfélagi - það er ekkert annað í boði en að halda áfram og líta framtíðina björtum augum.

Með hollustu- og baráttukveðju frá Ávaxtabílnum

Haukur Magnússon og starfsfólk

10 ára afmæli
Fyrri   Næstu
Til baka
Fyrirtækjaáskrift:
  Kennitala:  
  Lykilorð:  
   


Hefur fyrirtækið þitt prófað ávaxtaveislubakkana okkar?
 
  Nei
  Nei en langar að prófa
Senda inn svar

Vertu vinur okkar
Ávaxtabíllinn - Ávextir í áskrift
Sími: 517-0110
avaxtabillinn@avaxtabillinn.is   www.avaxtabillinn.is